131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:32]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að hv. þingmaður hefur tekið það til baka að rekstur Tækniháskólans hafi verið til skammar (Gripið fram í.) hv. þingmaður sagði það, það er hægt að fletta því upp. Mér þykir vænt um að hv. þingmaður hefur tekið það til baka.

Ég vil líka lýsa yfir svolítilli undrun minni á því að hv. þingmaður skuli ekki vita að oft þegar við byggjum nýjar stofnanir, sérstaklega á það við um ýmsar menntastofnanir, m.a. á það mjög skýrt við Háskólann á Akureyri að það hefur tekið tíma að koma upp húsnæði sem hæfir þeirri virðulegu stofnun. Menn hafa stundum orðið að sætta sig við húsakynni sem ekki eru allt of göfug. En í vaxandi stofnunum una þeir því vel sem þar eru og halda áfram að byggja upp þá stofnun sem þeir starfa við og vinna við og njóta. Þannig hefur það verið um Tækniháskólann.