131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:58]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Upphrópanir hv. þingmanns um forpokun og gamla alþýðubandalagsmenn eru ekki svaraverðar.

Síðan ætla ég að vísa til föðurhúsanna því sem hann heldur fram um Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, að við sýnum ekki virðingu þeim nemendum og þeim kennurum sem eru búnir að bíða eftir því að þetta verði að veruleika. Ég ætla bara að ítreka það hér og endurtaka: Fólkið sem hefur staðið við bakið á tækninámi á Íslandi undanfarna áratugi hefur beðið í áratugi eftir því að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins geri eitthvað í málefnum tæknináms á háskólastigi.

Tækniháskóli Íslands var stofnaður fyrir tæpum þremur árum. Hvers vegna var ekki staðið við bakið á þeim skóla? Hvers vegna var sá skóli sveltur? Halda menn að það sé eitthvað annað en eðlilegt að menn bíði eftir úrlausninni og taki þessu eina hálmstrái sem nú er að þeim rétt?

Þetta fólk á mína samúð og virðingu frá upphafi til enda. Því hef ég lýst í ræðum mínum og það væri betur að hv. þingmaður hefði hlustað á allar þær ræður sem ég hef flutt í stað þess að koma hér og gaspra þetta.