131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:02]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Tækniháskóli Íslands fékk ekki það sem nauðsynlegt var fyrir hann. Ef hann hefði fengið nauðsynlega fjármuni frá hinu opinbera hefði hann ekki endað uppi með á annað hundrað milljónir í halla núna þegar hann er gerður upp.

Ég vil segja síðan við hv. þingmann, sem heldur því fram að Vinstri hreyfingin – grænt framboð telji að ekki geti verið jafnrétti til náms í einkaskólum, að hann verður að athuga að hér er verið að loka tækninámið inni í einkaháskóla sem krefur nemendur um há skólagjöld. Það verður enginn valkostur fyrir þá nema sem ekki geta reitt skólagjöldin fram eða ekki eru tilbúnir til að skuldsetja sig óhóflega við Lánasjóð íslenskra námsmanna til að stunda tækninám á háskólastigi. Það verður bara þessi eini skóli. Þetta er ekki að auka fjölbreytni til náms. Þetta er þvingun fólks inn í eina tegund náms, þ.e. einkarekið nám sem krefur fólk um skólagjöld.