131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:08]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Gunnar Birgisson heldur hér mjög skemmtilegar ræður. Kannski mætti vera aðeins meira gagn að ræðum hans, sérstaklega af því að hann er formaður menntamálanefndar og á þess vegna að vera hér í að svara ýmsum spurningum sem til hans er beint.

Það var áhugavert að hann las hér í annað skipti í þessari umræðu upp úr plaggi sem kennt er við Guðfinnu Bjarnadóttur. Hann las þennan kafla um sjálfseignarstofnanirnar, hvaða hugarfar væri á bak við þær, að það sé nánast það, með leyfi forseta, „„að þegar einhver hefur stofnað hana og lagt fram peninga í stofnfé þá sé afskipta viðkomandi ekki óskað frekar“. Það er afar ábyrgðarlaust að reka háskóla með þeim hætti.“

Hvað telur hv. þm. Gunnar Birgisson um þetta? Telur hann að það sé ábyrgðarlaust að reka Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Viðskiptaháskólann á Bifröst með þessum hætti? Telur hann að það sé raunveruleg hætta á því að þær sjálfseignarstofnanir fari á þennan veg? Á þá ekki að beina því til þessara stofnana, þeirra sem eftir verða, að þær breyti sér hið snarasta í eitthvert annað form en þetta (Forseti hringir.) ábyrgðarlausa form sem Gunnar Birgisson hefur hér eftir mönnum úti í bæ að sé?