131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:10]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er óskiljanlegt að hv. þm. Gunnar Birgisson skuli ekki geta svarað einfaldri spurningu. Hann hefur tvisvar lesið það að sjálfseignarstofnun sé þannig í laginu að það sé afar ábyrgðarlaust að reka háskóla með þeim hætti. Á að skilja þetta svo að hann taki ekki undir þessi orð Guðfinnu Bjarnadóttur eða hvers sem þetta hefur skrifað? Af hverju er hann þá að lesa það hérna tvisvar?

Er það ábyrgðarlaust eða er það ekki ábyrgðarlaust að reka Listaháskóla Íslands, Háskóla Reykjavíkur hingað til, Viðskiptaháskólann á Bifröst og Verslunarskóla Íslands — þó að hann sé að vísu ekki háskóli — með þessum hætti eða ekki? Getur hann ekki svarað þessu, maðurinn? Af hverju getur hann ekki svarað þessu? Af hverju les hann þetta tvisvar en getur ekki komið upp í ræðustól og svarað, heldur fer alltaf í eitthvert gamalt flokkakerfi sem honum þykir vænt um? Það er kannski eitthvað úr kalda stríðinu sem hv. þingmaður getur ekki losnað við?

Ég deili ást hans á Alþýðubandalaginu sem sögulegu fyrirbæri. Það var merkilegur hlutur á sínum tíma en það kemur þessu máli ekki mjög mikið við. Það kemur hins vegar þessu máli við þegar hv. þingmaður les tvisvar upp úr einhverjum texta og þá verður hann að segja hvort hann tekur ábyrgð á þeim texta, hvort hann er sammála honum eða ekki, og þá hvers vegna hann er að lesa upp úr texta sem hann er ekki sammála.