131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:13]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef það má marka orð hv. formanns menntamálanefndar er verið að fara hérna út í einkavæddan ríkisrekstur því að ætlunin er að fjármagna þennan skóla annars vegar með ríkisframlögum, samningum við ríkið, og hins vegar með því að nemendur fái lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna fyrir skólagjöldunum. Það er verið að taka upp einkavæddan ríkisrekstur.

Hv. þingmaður hefur lesið hér upp samþykktir fyrir hlutafélagið eins og þetta sé hluti af lagagjörningnum sem hér á sér stað. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Lítur hann svo á að þær samþykktir sem hér eru fyrir fyrirtækið Hástoð ehf. séu hluti af þeim lagagjörningi sem verið er að taka til afgreiðslu og megi ekki breyta nema það komi inn á þingið? Annars væri meiningarlaust (Forseti hringir.) af hv. þingmanni að lesa það hér upp.