131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:15]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara vekja athygli á því að hv. formaður menntamálanefndar hefur, máli sínu til stuðnings, lesið upp texta um samþykkt að hlutafélagi eins og það sé hluti af lagagerningnum. Ég tel óeðlilegt ef menn segja að síðan sé hægt að breyta því á næsta fundi hlutafélagsins sem hér er haft fyrir rök. Þannig málflutningur er ekki sæmandi sem rökstuðningur fyrir þessu máli.

Hv. þingmaður talaði um virðingu fyrir námi og ábyrgð. Það sem hefur í raun gerst á undanförnum árum er að Tækniháskólinn hefur verið í fjársvelti. Vinstri grænir hafa flutt tillögur hvað eftir annað um aukinn fjárstuðning við skólann en því hefur verið hafnað af Sjálfstæðisflokknum. Hvar er þá virðingin fyrir nemendum sem hv. þingmaður var að guma af? Þeir fá ekki einu sinni aðild að stjórn skólans. Þeim er ekki einu sinni sýnd sú lágmarksvirðing sem nemendum veitist í öðrum háskólum, í menntastofnunum á líku stigi. Þar eiga nemendur aðild að stjórn skóla og eru þátttakendur í uppbyggingu hans. Þetta er nú virðingin, að líta á nemendur sem markaðsvöru. Það eru skilaboð Sjálfstæðisflokksins.