131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:55]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Það kom hér fram í ræðu hv. þingmanns Gunnars Birgissonar að hann áttaði sig ekki á hvort Frjálslyndi flokkurinn væri að fara eða koma í málinu. Ég átta mig nú ekki á þessum málflutningi hjá hv. þingmanni. En ég flutti hér ræðu í dag þar sem ég fór yfir málið og ég tel að hún hafi verið nokkuð skýr. Ég veit nú ekki hvort ég eigi að þreyta allan þingheim með því að flytja sömu ræðuna á ný. En ég undrast að hv. þingmaður skuli ekki sem formaður menntamálanefndar vera hér viðstaddur. Ef eitthvað í minni ræðu var óskýrt, hvers vegna spurði hann þá ekki út í það? Hvað var maðurinn að gera? Út af hverju fylgist hann ekki með umræðu hér á þingi? Var hann einhvers staðar að malbika eða hvað var hann að gera? Ég átta mig ekki á því. Mér finnst ákveðinn dónaskapur að saka hér menn um málþóf og eitt og annað. Hvað á það að þýða? Ég sé ekki að hér hafi staðið neitt málþóf yfir. Að vísu hafa verið hér fluttar langar ræður.

Ef ég á að fara efnislega yfir ræðu mína þá kom það þar fram fyrr í dag að þetta væri engin óskastaða. Við í Frjálslynda flokknum, sem höfum mikinn áhuga á menntamálum, sérstaklega að efla verknám og tækninám, hefðum ekki staðið svona að málum. Það voru einkum þrír þættir sem við settum fyrirvara við. Sá fyrsti er að við hefðum lagt meiri áherslu á að kanna möguleika á frekari sameiningu við Háskóla Íslands. Ég tel að ef sýnt hefði verið fram á það með frekari rökum þá hefði málið verið betur unnið.

Í öðru lagi teljum við að fara verði yfir þá gagnrýni sem hefur komið fram varðandi akademískt frelsi. Það er vel hægt að ganga úr skugga um að kennarar hafi þetta akademíska frelsi, þ.e. að ákveðið frelsi verði í því sem þeir rannsaka og að þeir verði ekki sakaðir um að ganga erinda hagsmuna hlutafélagsins. Um það snýst málið. Ég tel að það sé allra hagur og sérstaklega umræddar stofnunar að ganga úr skugga um það, eins og stofnunin hefur gert, að hún er ekki ætluð til þess að stunda einhverja gróðastarfsemi heldur á þetta að vera háskólastarfsemi sem á að einbeita sér að menntun.

Í þriðja lagi fór ég yfir þá gagnrýni sem við í Frjálslynda flokknum höfum viðhaft og áhyggjur okkar af því að með því að leggja skólagjöld á þá menntum sem þarf að efla í landinu séum við að hrekja fólk úr námi í staðinn fyrir að hvetja fólk til náms.

Af þessum þremur punktum höfum við áhyggjur. Ég vil segja að ef hv. þingmaður vill gera einhverjar athugasemdir eða fá frekari upplýsingar um stefnu okkar í Frjálslynda flokknum um málið þá er sjálfsagt að koma hér og vera viðstaddur. Sem formaður menntamálanefndar ætti hann náttúrlega að sjá sóma sinn í því. Ég átta mig í raun ekki á því af hverju hann kom hér og sletti yfir fólk einhverju þvaðri fram og aftur um að hann skildi ekki þetta og hitt í málflutningi hafandi síðan ekki verið á staðnum. Mér finnst það ómerkilegt og formanni menntamálanefndar ekki til sóma.