131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[19:21]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Einhver sagði líka að sannleikanum yrði hver sárreiðastur. Það er greinilegt að hv. þm. Mörður Árnason er mjög sár og svekktur yfir því að maður taki upp einföld atriði sem menn hafa verið að impra hér á. Ég skil hv. þingmann, það er erfitt að sitja undir því að vera á móti jafnmerkilegu og -góðu máli. Ég skil afar vel að menn verði hvekktir og erfiðir þegar þeir átta sig á því hver mistökin eru þegar kemur að því að ýta á hnappana í þessum þingsal.

Ég tel mig hafa svarað öllum þessum spurningum hv. þingmanns en það er alveg sjálfsagt mál að fara yfir þetta aftur.

Á milli ráðuneytisins og háskólanna, til að mynda Háskóla Íslands, eru ákveðnir samningar, kennslusamningur annars vegar og rannsóknarsamningur hins vegar. Það er samningur sem menn fara eftir, það er ákveðið reiknilíkan sem byggt er á sem var byggt upp á sínum tíma í góðri samvinnu við Háskóla Íslands, fjármálaráðuneytið og síðan menntamálaráðuneytið. Að þessu hefur verið unnið í mikilli sátt. Innan þessara samninga og síðan þess ramma útdeilir háskólinn fjármunum sínum, eftir sínu ákveðna dreifilíkani. Háskóli Íslands dreifir sjálfur fjármunum sínum og ákveður hvert þeir fara, í hvaða greinar, hvaða grunnnám, hvaða mastersnám o.s.frv.

Auðvitað þarf Háskóli Íslands eins og aðrir háskólar að forgangsraða í hvaða hluti hann vill setja fjármagnið. Ef Háskóli Íslands vill koma af stað tæknideild getur hann gert það svo lengi sem hann gerir það innan rammans. Ef hann vill forgangsraða þannig mun ég að sjálfsögðu ekki standa gegn því svo lengi sem hann heldur sig við samninga og er innan ramma.

Varðandi nemendurna í háskólaráði er alveg ljóst að hér er um annað fyrirkomulag að ræða. Það sem einkenndi mjög ræður hv. þingmanna var þetta dæmalausa vantraust sem hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni bera til skólastjórnenda hins nýja háskóla.