131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[19:24]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú ætla ég að reyna í þriðja sinn að setja mál mitt þannig fram að hv. þm. Mörður Árnason skilji og tel ég það ekki vanvirðingu við hv. Alþingi.

Við erum að fjalla um mál sem kemur til með að efla tækni- og verkfræðinám hér til framtíðar, við erum akkúrat að fjalla um slíkt mál. Það er stefna ráðuneytisins að efla tæknimenntun og fjölga tæknimenntuðu fólki. Ef við lítum til sögunnar, og það er eitthvað sem hv. þm. Mörður Árnason kann og skilur, þ.e. að horfa til sögunnar, spyr ég: Hvað gerist þegar við fjölgum háskólum, fjölgum tækifærum fólks til menntunar? Hvað gerðist þegar fleiri lagadeildir komu til skjalanna innan samfélagsins? Auðvitað efldist allt laganámið, valfrelsið jókst og tækifærin jukust. (Gripið fram í.) Horfa til sögunnar og þá skilja menn þetta. Það er verið að koma á og efla samkeppni í háskólamálum og það er það sem menn hljóta að ná að skilja eftir þessa umræðu í dag.