131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[19:26]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í ræðu hæstv. menntamálaráðherra að í ræðum stjórnarandstöðunnar kæmi fram ákveðin vantrú og jafnvel óvild í garð eigenda. Það eru ekki mín orð hér í kvöld og í dag. Ég tók það einmitt fram í ræðu minni að ég hefði fulla trú á eigendunum og að ég standi í þeirri trú að þeir muni nota áhrif sín til góðra verka. Ég vil að það fari ekki á milli mála.

Ég sagði jafnframt að rétt væri að taka það fram í ráðningarsamningum eða í einhverri álíka samþykkt skólans að kennarar nytu akademísks frelsis vegna þess að ef svo væri ekki væri hægt að draga verk þeirra í efa og gagnrýna þá fyrir að þeir gengju erinda eigenda skólans. Mér finnst óþarfi að bjóða þeim efa heim. Ég tók fram að ég óskaði skólanum velfarnaðar. Mér finnst svolítið sérstakt, sérstaklega hvað varðar hv. formann menntamálanefndar, að hann sé ekki glaðari hér í dag. Nú er að nást í gegn frumvarp sem hann hefur barist fyrir og menn eru hér (Gripið fram í.) í hálfgerðri fýlu. (Gripið fram í.) Menn ættu að vera hér miklu glaðari í bragði.

Ég óska þessum skóla velfarnaðar og vil nota tækifærið til þess hér úr þessum ræðustól.