131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[19:35]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort ég á að elta lengur ólar við þann málflutning sem hér er uppi.

Ég hef, m.a. til að rökstyðja mál mitt, spurt: Hvernig væri ef stjórnarandstaðan væri við stjórnvölinn og stjórnaði menntamálum þessa lands? Þá mundi hið nákvæmlega sama gerast og gerst hefur í Reykjavíkurborg, þar sem stjórnarandstaðan hefur verið með töglin og hagldirnar varðandi skólamál. Hvað er að gerast þar? Einkaskólar fá ekki tækifæri. Það er nákvæmlega hið sama sem mundi gerast í háskólamálunum. Einkaskólarnir mundu aldrei fá tækifæri til að eflast og dafna eins og þeir hafa fengið tækifæri til á síðustu árum. Þannig er þetta. Svona eru hlutirnir, þetta eru staðreyndir sem tala sínu máli. Ég veit að það getur verið erfitt að hlusta á þetta en svona er þetta einfaldlega, hæstv. forseti.