131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Meðferð Bandaríkjamanna á föngum í Guantanamo.

411. mál
[12:01]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin tóku stjórnvöld þar ákvörðun sem færði klukkuna í alþjóðamannréttindum aftur fyrir lok síðari heimsstyrjaldar. Hópur í Hvíta húsinu réðist í það verkefni með mikilli leynd að smíða nýjar réttarreglur til að geta tekið á hryðjuverkamönnum. Í því skyni sniðgengu embættismennirnir bandarískt réttarkerfi og gengu fram hjá stjórnarskrárvörðum réttindum.

Í framhaldi af þessu var hernum gefið leyfi til að skilgreina fanga sem ólöglega stríðsmenn sem þýddi, samkvæmt yfirlýsingum stjórnvalda í Washington, að þeir nytu ekki réttinda sem Genfarsáttmálinn frá 1949 tryggir stríðsföngum. Herinn fékk heimild til að hafa slíka fanga í haldi án tímamarka og sækja þá til saka fyrir dómstólum sem ekki höfðu verið notaðir síðan í síðari heimsstyrjöldinni. Samkvæmt heimildum New York Times var áætluninni haldið leyndri fyrir Colin Powell utanríkisráðherra og Condoleezzu Rice þjóðaröryggisráðgjafa, sem segir sitt um aðdraganda málsins.

Um áramótin 2001–2002 var búið að flytja 50 menn sem voru taldir liðsmenn al Kaída eða talibanasamtakanna frá Afganistan til herstöðvarinnar á Kúbu. Þá sagði Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra að Bandaríkjamenn hefðu að mestu leyti hug á því að koma fram við þá þannig að það væri tiltölulega samrýmanlegt ákvæðum Genfarsáttmálans. Þó var orðið ljóst að varnarmálaráðuneytið ætlaði að leika allt í senn, hlutverk dómara, kviðdóms og böðuls en í byrjun febrúar sama ár kemur fram að Bandaríkjaforseti hafi ákveðið — já, bara sisvona — að ákvæði Genfarsáttmálans skuli gilda um talibana, en um þetta leyti voru fangarnir á Kúbu orðnir 186.

Þann 28. júní 2004 úrskurðaði hæstiréttur Bandaríkjanna að fangar í Bandaríkjunum sem grunaðir væru um hryðjuverk, jafnt erlendir sem bandarískir, hefðu rétt til að skjóta máli sínu til bandarísks dómstóls og jafnframt að bandarísk lögsaga nái til allra svæða þar sem bandarískum lögum er beitt. En þá voru fangarnir í Guantanamo 600 og ekki farið að rétta í máli eins einasta þeirra.

Hæstv. forseti. Þann 6. apríl 2004 spurði ég þáverandi hæstv. utanríkisráðherra við umræður um utanríkismál á Alþingi hvort þessu framferði hefði verið mótmælt, með hvaða hætti það hefði verið gert og hvort hæstv. ráðherra teldi ekki eðlilegt að slík mótmæli kæmu fram. Það komu engin svör við þeim spurningum þá.

Nú spyr ég núverandi hæstv. utanríkisráðherra eftirfarandi spurninga:

Hafa íslensk stjórnvöld rætt málefni fanganna í Guantanamo á Kúbu við bandarísk stjórnvöld og mótmælt því að þeir njóti ekki réttinda stríðsfanga samkvæmt Genfarsáttmálanum? Ef svo er, hvenær fóru þær viðræður fram og hver voru viðbrögð bandarískra stjórnvalda?