131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Meðferð Bandaríkjamanna á föngum í Guantanamo.

411. mál
[12:05]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur spurt spurninga um það hvort íslensk stjórnvöld hafi rætt málefni fanganna í Guantanamo á Kúbu við bandarísk stjórnvöld og mótmælt því að þeir njóti ekki réttinda stríðsfanga samkvæmt Genfarsáttmálanum, og ef svo væri hvenær slíkar viðræður hafi farið fram og hver viðbrögðin hafi verið.

Svar mitt er þetta: Hryðjuverk eru ein mesta vá samtímans, hryðjuverkamenn vega að grundvallargildum lýðræðisríkjanna og mörg hryllilegustu mannréttindabrot undanfarinna ára hafa verið framin af hryðjuverkamönnum eins og menn þekkja. Það er mjög mikilvægt að samstaða lýðræðisríkja bresti ekki og baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi linni ekki heldur haldi áfram með öllum löglegum aðferðum.

Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að baráttan gegn hryðjuverkum megi ekki vera á kostnað mannréttinda. Þau sjónarmið hafa komið skýrt fram í ræðum utanríkisráðherra og annarra talsmanna ríkisstjórnarinnar á Alþingi sem og á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Varðandi fangana í Guantanamo leggja íslensk stjórnvöld áherslu á að Bandaríkjamenn, sem og allir aðrir, fari í einu og öllu eftir gildandi mannúðar- og mannréttindalögum svo sem alþjóðasamningum um bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri meðferð og Genfarsamningnum, en í þeim felast grundvallarreglur alþjóðlegra mannúðarlaga á stríðstímum og reglur um meðferð stríðsfanga.

Afstaða Íslands hefur verið sú að skilvirkast sé að fylgja slíkum mannréttindamálum eftir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. En vinur er sá sem til vamms segir. Þess vegna hafa málefni fanganna í Guantanamo verið tekin upp bæði formlega og óformlega við bandarísk stjórnvöld og íslensk stjórnvöld hafa fylgst með þróun þeirra mála. Sendiráð Íslands í Washington hefur einnig fylgst með umfjöllun um stöðu fanganna og sótt upplýsingafundi bandarískra stjórnvalda um þau efni. Skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins ræddi málefni fanganna í Guantanamo á fundi með sérstökum erindreka Bandaríkjanna um málefni Sameinuðu þjóðanna 23. apríl 2004 þar sem áhyggjum Íslands var komið á framfæri, sérstaklega hvað varðar meðferð og réttarstöðu fanganna.

Þáverandi utanríkisráðherra átti sérstakan fund með sendiherra Bandaríkjanna 18. maí 2004 þar sem málefni fanganna í Abu Ghraib fangelsinu í Írak voru rætt og einnig staða fanganna í Guantanamo. Þar var sérstökum áhyggjum íslenskra stjórnvalda vegna stöðu fanganna í Guantanamo lýst um leið og bandarísk stjórnvöld voru hvött til að skilgreina stöðu þeirra sem allra fyrst. Sendiherra Bandaríkjanna lofaði að koma þeim sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda á framfæri við stjórnvöld í Washington.

Virðulegi forseti. Með þessum orðum tel ég mig hafa svarað þeirri fyrirspurn sem hv. þm. Jóhann Ársælsson bar fram.