131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Meðferð Bandaríkjamanna á föngum í Guantanamo.

411. mál
[12:08]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er gott að heyra að íslensk stjórnvöld hafi hvatt bandarísk stjórnvöld til að skilgreina stöðu fangana í Guantanamo sem allra fyrst, en flestir þeirra fanga hafa verið þar í næstum þrjú og hálft ár, skilgreindir sem óvinveittir stríðsmenn, algjörlega réttlausir og í bága við allar alþjóðasamþykktir hvort sem við tölum um Genfarsáttmálann eða önnur alþjóðalög.

Það sem er alvarlegast í málinu er að með aðgerðum sínum vegur Bandaríkjastjórn að grundvelli þess alþjóðakerfis sem hún kom á fót ásamt öðrum ríkjum eftir heimsstyrjöldina síðari með því að stofna Sameinuðu þjóðirnar, með Bretton Woods samkomulaginu og þar fram eftir götunum og að grundvelli alþjóðalaga sem leiðarhnoða í samskiptum ríkja. Við vitum öll að í Guantanamo eru aðstæður óboðlegar, ólöglegar og ómanneskjulegar. En það sem er kannski kaldranalegast við það er að aðferðirnar sem þar eru notaðar gagnast engan veginn í baráttunni gegn hryðjuverkum.