131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Meðferð Bandaríkjamanna á föngum í Guantanamo.

411. mál
[12:14]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það var gríðarlegt áfall fyrir alþjóðasamvinnu um mannréttindi þegar öflugasta herveldi hnattkúlunnar fyrr og síðar ákvað hvenær ætti að virða þær reglur sem voru settar í lok þess hildarleiks sem fram fór í síðari heimsstyrjöldinni. Grimmustu harðstjórar heimsins munu líta á þetta framferði sem fordæmi nú og í framtíðinni. Þess vegna er afar mikilvægt að hver einasta þjóð sem virðir mannréttindi í verki mótmæli skýrt og afdráttarlaust á alþjóðavettvangi.

Mér finnst alls ekki nóg að talað sé í hvíslingum við ráðamenn þegar tækifæri gefast. Það þarf auðvitað að koma skýrt fram á alþjóðavettvangi hvað þjóðir hafa um þetta að segja, vegna þess að þetta er að grafa undan mjög mikilvægum ákvörðunum sem hafa verið teknar sameiginlega af þjóðum heims og ekki annað verjandi en að umræða um þá hluti fari fram opinberlega með mjög skýrum hætti og kröftugum mótmælum. Mér finnst alls ekki að íslensk stjórnvöld hafi staðið sig hvað þetta varðar.

Ég tel fulla ástæðu til að spyrja um það hvort ekki eigi að bæta úr því með því að láta það koma skýrt og ákveðið fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í viðræðum við bandarísk stjórnvöld og yfirlýsingum sem tengjast slíkum viðræðum svo það sé alveg ljóst að Íslendingar vilji vinna að því að þessi mannréttindi verði virt til framtíðar og að hið skelfilega frumhlaup Bandaríkjamanna verði ekki fordæmi fyrir harðstjóra heimsins í að koma fram með sama hætti þegar þeim þykir henta að taka grimmúðlega á andstæðingum sínum.