131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Meðferð Bandaríkjamanna á föngum í Guantanamo.

411. mál
[12:16]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegur forseti. Það kom skýrt fram í svari mínu að afstaða okkar liggur algerlega klár og skýr fyrir gagnvart Bandaríkjunum. Það hefur því ekki verið ástæða til þess að ég tæki málið sérstaklega upp á þeim fundum sem ég hef átt með Bandaríkjaforseta eða þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ég átti reyndar símtal við núverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna fyrir tveimur dögum en um aðra hluti. Þó að við höfum þessa ákveðnu skoðun á málinu tel ég ekki að það sé sérstaklega á okkar könnu umfram aðra að sá tiltölulega litli tími sem við höfum til að ræða sameiginlegu verkefnin okkar sé tekinn upp í umræðu um það efni, því að afstaða okkar liggur fyrir og hefur verið komið á framfæri. (Gripið fram í: ... dregið úr og í.) Finnst hv. þingmanni það? Það finnst mér ekki. Afstaðan liggur algerlega fyrir.

Ég vil líka benda á, eins og hv. fyrirspyrjandi gerði í upphafi máls síns, að dómstólar í Bandaríkjunum eru að fjalla um málið. Bandaríkin eru réttarríki. Lægri dómstóll hafði kveðið upp tiltekinn úrskurð, hæstiréttur hefur breytt þeim úrskurði og nú mun mál, eftir því sem ég best veit, bílstjóra Osama bin Ladens koma fyrir rétt 8. þessa mánaðar. Málin eru því að koma fyrir rétt í Bandaríkjunum. Við höfum hins vegar látið afstöðu okkar í ljós, formlega og óformlega, með hvaða hætti við teljum hlutum þarna ábótavant og höfum ekki staðið okkur verr í þeim efnum en önnur ríki. Við gerum það hins vegar, kannski ólíkt sömu ræðumönnum hér, af fullri vinsemd í garð Bandaríkjanna.