131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Skoðunarferðir í Surtsey.

525. mál
[12:21]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Surtsey er friðland og nýtur verndunar samkvæmt náttúruverndarlögum. Með friðlýsingu Surtseyjar árið 1965 og endurnýjun friðlýsingarinnar 1974 var mótuð sú stefna að friða eyjuna til vísindalegra rannsókna og fræðslu um þróun bergs og jarðlaga og því hvernig dýr og plöntur nema land á nýjum einangruðum eyjum. Þær rannsóknir hafa staðið yfir óslitið frá því að eyjan myndaðist eða í rúmlega 40 ár. Surtseyjarfélagið hefur haft umsjón með eyjunni fyrir hönd Umhverfisstofnunar. Félagið hefur einnig umsjón með vísindarannsóknum í Surtsey og samræmir þær. Rannsóknirnar hafa aðallega verið unnar og kostaðar af Náttúrufræðistofnun Íslands og Hafrannsóknastofnun hin síðari ár, en áður einnig af Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Háskóla Íslands með þátttöku erlendra háskóla og vísindastofnana.

Rannsóknir í Surtsey standa enn yfir og eru farnir leiðangrar til eyjarinnar á hverju ári. Í Surtsey eiga sér enn stað miklar jarð- og líffræðilegar breytingar og er vísindalegt gildi eyjarinnar enn mjög mikið. Vegna rannsóknarhagsmuna er mikilvægt að halda umferð um eyjuna í lágmarki. Það er mat þeirra sem best til þekkja að útilokað yrði að fyrirbyggja rask á jarðmyndunum og truflun á lífríki í eyjunni þótt mikillar varúðar yrði gætt og settar takmarkanir á fjölda ferðamanna sem fengju leyfi til að heimsækja eyjuna á ári hverju. Þar með yrði því teflt í tvísýnu að náttúran fengi að þróast þar áfram eftir eigin lögmálum og vísinda- og fræðslugildi Surtseyjar mundi tvímælalaust minnka.

Að svo stöddu er ekki tímabært að breyta friðlýsingarákvæðum sem eru í gildi um Surtsey og veita ferðamönnum aðgang að eyjunni.