131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Skoðunarferðir í Surtsey.

525. mál
[12:25]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég fagna svari hæstv. umhverfisráðherra við þeirri fyrirspurn sem fyrir liggur. Það er alveg einstakt hvernig til hefur tekist með Surtsey frá því að eyjan reis úr sæ. Vísindasamfélagið hefur umvafið eyjuna bæði með vernd í huga og ekki síður rannsóknir á þessu einstaka fyrirbæri. Þar hefur vel tekist til. Friðhelgi eyjarinnar hefur verið virt þrátt fyrir nálægð við tiltölulega þéttbýla byggð í Vestmannaeyjum og Vestmannaeyingar hafa algerlega virt friðhelgi eyjarinnar.

Ég get ekki tekið undir hugmynd sem mér fannst koma fram hjá hv. fyrirspyrjanda að hægt væri að selja ríkum erlendum túristum snobbferðir til eyjunnar vegna þess hve hún væri einstök því sá tími sem liðinn er frá því að eyjan reis úr sæ er ekki nema sekúndubrot í jarðsögulegum tíma og alls ekki tímabært að opna hana fyrir ferðamönnum eða almennri umferð.