131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Skoðunarferðir í Surtsey.

525. mál
[12:28]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að bera fram fyrirspurnina. Hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á því hvort heimila eigi ferðamönnum að koma í eyjuna eða ekki breytir það ekki hinu að mikilvægt er að ræða þetta og draga fram upplýsingar og sjónarmið sem skipta máli í því samhengi.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra hafa rannsóknirnar staðið yfir í langan tíma og afar mikilvægt að reyna að átta sig á því hvað þær þurfa að standa lengi yfir. Hvað sjá menn fyrir sér að þetta þurfi að standa lengi yfir þar til hægt sé að heimila ferðamönnum að koma þarna? Einnig þarf að fara mjög vandlega yfir það sjónarmið hvort hægt sé að heimila ferðamönnum í takmörkuðum mæli að koma þarna að. Það skiptir gríðarlega miklu máli að vel sé að málum staðið og mér hefur fundist menn fullfljótir að draga ályktanir í umræðunni án þess að leggja til þær rannsóknir sem nauðsynlegt er að fara í áður en menn slá hugmynd eins og þessa út af borðinu.