131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Skoðunarferðir í Surtsey.

525. mál
[12:29]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni, ekki síst síðasta hv. þingmanni sem hér lagði orð í belg. Ég hygg að enginn ágreiningur sé um mikilvægi Surtseyjar út frá vísindalegu sjónarmiði. Þetta er einstakt náttúrufyrirbrigði og ber að varða það og verja. Um það er ekki ágreiningur og þess vegna hefur eyjan verið friðlýst. Spurningin stendur um það, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson nefndi áðan: Hversu lengi ætla menn að halda eyjunni lokaðri? Einungis vísindasamfélagið hefur aðgang að henni. Það er rétt að árétta að mikilvægt er að ganga varlega um þarna og við verðum að svara spurningunni: Ætlum við einhvern tíma að hleypa ferðamönnum, öðrum en vísindamönnum út í eyjuna?

Ég leyfi mér að vísa til reynslunnar frá Galapagoseyjum þar sem er sérlega viðkvæmt lífríki en hefur tekist að varðveita það þótt seldar séu ferðir þangað. Þegar menn hafa velt því upp að opna fyrir sérstakar ferðir út í Surtsey er ekki verið að tala um að hver og einn geti þangað farið heldur verði það fáeinir aðilar sem hafi heimild til þess og þurfi að uppfylla ákveðnar reglur, t.d. um sérstakan búnað og einnig verði að merkja sérstakar gönguleiðir þannig að ferðamenn geti ekki flætt um allar eyjarnar og þar fram eftir götunum.

Ég vil að lokum, frú forseti, taka undir það sem hér var nefnt og hvetja hæstv. ráðherra til að vera vakandi yfir því hvort og ef þá hvenær rétt sé að opna einhverja smugu undir afar ströngum skilyrðum. Ávinningurinn er augljós. Því fleiri sem fá að upplifa hið merka náttúruundur þeim mun meiri verður skilningur á lífi okkar og náttúru, að ekki sé minnst á þann mikla ávinning sem ferðaþjónustan hefði af þessu á landinu öllu en ekki síst á Suðurlandi.