131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Landnám lífvera í Surtsey.

526. mál
[12:39]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mér hefur fundist á umræðunni að rannsóknir og skoðun á Surtsey, ef ég má leyfa mér að orða það þannig, séu fyrst og fremst verkefni lokaðs klúbbs eða lokaðs hóps að fjalla um. Þótt gefnar séu upplýsingar séu á heimasíðu þá er þáttur almennings í þessu ekki mjög mikill. Ég tel mikilvægt að upplýsa almenning eins og kostur er um þá starfsemi sem fer fram í Surtsey og gildi þeirra rannsókna sem þar fara fram, auk sýnar manna til framtíðar Surtseyjar, notkunarmöguleika og nýtingar á eynni. Hér er um mjög merkt náttúrufyrirbæri að ræða eins og komið hefur fram.

Ég vildi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra hvort ekki væri lag, í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið, að halda opna ráðstefnu um Surtsey, framtíð Surtseyjar og gildi rannsókna á eynni. Ég er sannfærður um að Vestmannaeyjabær væri tilbúinn að taka þátt í undirbúningi slíkrar ráðstefnu í samráði við umhverfisráðherra.