131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Landnám lífvera í Surtsey.

526. mál
[12:41]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Mér þykir gott að heyra að hv. þingmenn eru hægt og hægt að sjá ljósið og þá möguleika sem þarna eru enda er það einkenni góðrar umræðu að menn sjá ljósið um síðir.

Svo ég segi mína skoðun þá tel ég að vitaskuld eigi að vera hægt að opna, undir afar ströngu eftirliti, fyrir ferðir með almenning. Það yrði að vera undir mjög ströngu eftirliti þar sem notast væri við hreinsunarbúnað o.s.frv., annað eins hefur nú verið gert.

Auðvitað ber að þakka það sem vel er gert. Surtseyjarfélagið hefur að mörgu leyti staðið sig frábærlega við að kortleggja hið merkilega landnám lífvera í Surtsey undir forustu dr. Sturlu Friðrikssonar, hins merka vísindamanns. Eins og komið hefur fram í umræðunni þá eru þær upplýsingar ekki nógu aðgengilegar þótt þær séu á annars mjög góðri heimasíðu. Ég tel að það þurfi að efla mjög fræðslu til almennings af því að þetta er svo einstakt og það eykur um leið skilning almennings á náttúruundrum og náttúru okkar. Ekki veitir af.

Ég fagna hins vegar þeirri yfirlýsingu sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kom með, um að opna fyrir ráðstefnu um framtíð Surtseyjar og þá starfsemi sem þar hefur farið fram og það sem kann að verða í framtíðinni. Ef ég skildi hv. þingmann rétt þá taldi hann að Vestmannaeyjabær væri til í að koma í slíkt samstarf með hæstv. umhverfisráðherra. Það teldi ég vert að skoða vel og hvet hæstv. ráðherra til þess að svara því. Hver veit nema í lok slíkrar ráðstefnu fengju menn að líta á náttúruundrið Surtsey, vel úðaðir af sótthreinsandi efnum og undir góðri forustu hæstv. umhverfisráðherra.