131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Fíkniefni í fangelsum.

562. mál
[12:52]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að hreyfa málefnum fíkniefna í fangelsum. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hvaða ófremdarástand ríkti þar inni miðað við það sem fram kom í fyrirspurninni og svör hæstv. ráðherra.

Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að föngum sem ættu við fíkn að etja þegar þeir kæmu til afplánunar væri í raun og veru ekki boðið upp á meðferð við þeirri fíkn sinni heldur væru verkfærin þau að afeitra viðkomandi og reyna að halda honum frá fíkniefnum og síðan mikið um fíkniefnaleit og eftirlit og væntanlega refsingar því tengdu. Getur það í raun verið að föngum sé eingöngu boðið upp á meðferð við fíkn sinni í lok afplánunar en ekki í upphafi hennar? Væri ekki skynsamlegra til árangurs að reyna að losa fanga sem kemur inn til afplánunar við fíkn þannig að ekki þurfi að takast á við afleiðingar fíknarinnar allan tímann sem fangi afplánar í stað þess að vera eingöngu með leit og eftirlit eins og mér heyrðist ráðherra tala fyrir?