131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Rekstrarkostnaður Reykjavíkurflugvallar.

543. mál
[13:06]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég fagna orðum hæstv. samgönguráðherra varðandi flugvöllinn og styð stefnu hans í þeim málum. Flokksþing Framsóknarflokksins var haldið um helgina og ég var afskaplega ánægð með að flokksmenn samþykktu þar að stuðla áfram að því að hafa flugvöllinn í Reykjavík.

Hv. þm. Jón Gunnarsson sagði réttilega að verið væri að búa til eitthvert baráttumál á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Mér þykir það ekki góð þróun og vil minna á að það eru auðvitað margir á höfuðborgarsvæðinu sem vilja hafa flugvöllinn þar áfram og sjá sér hag í því. Það er margt fólk sem flýgur á milli til þess að fara á fundi út á land og öfugt og í þokunni hér í síðustu viku kom í ljós að ef menn ætluðu að ferðast frá Húsavík til Reykjavíkur með innanlandsflugi tæki það þá fimm klukkutíma. Sjá flestir að með þessu framhaldi mundi innanlandsflug eiga undir högg að sækja vegna þess að a.m.k. Norðlendingar mundu hugsa sig um tvisvar áður en þeir notuðu flugið.