131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Rekstrarkostnaður Reykjavíkurflugvallar.

543. mál
[13:07]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Margir Reykvíkingar sem þurfa að fara á fundi út á land? Mig minnir að í könnun sem gerð var fyrir einhverjum árum hafi komið í ljós að u.þ.b. 10% landsmanna notuðu innanlandsflugið oftar en einu sinni á ári eða eitthvað því um líkt. Ætli töluverður hluti af þeim sé ekki bara saman kominn í þessum sal, einkum ef sveitarstjórnarmönnum væri bætt við og forstjórum ýmissa (Gripið fram í.) fyrirtækja úti á landi? Það þarf því að fara aðeins glöggar í þetta. Hins vegar eru flugsamgöngur auðvitað mikilvægar, úr því hefur ekki verið dregið. Þess vegna erum við að spyrja um það, nokkrir þingmenn, m.a. úr Samfylkingunni, hvernig fyrirkomulag gæti orðið í Keflavík fyrir innanlandsflugið eða hvort hægt sé að finna því einhvern annan stað en það dýrmæta land sem er í Vatnsmýrinni. Við höfum rakið það, Reykvíkingar, fram og aftur, jafnvel þeir sem vilja gjarnan hafa flugvöll hér áfram, að það er of dýrmætt til þess að spandera því í vitleysisgang. Það er þetta sem við erum að tala um en hvorki innanflokksmál í Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki né Samfylkingunni.