131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Rekstrarkostnaður Reykjavíkurflugvallar.

543. mál
[13:08]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu, þ.e. málefnalega hlutann af henni. Þannig er það nú sjálfsagt innan flestra flokka að skoðanamunur er á milli fólks um staðsetningu flugvallarins, hvort hann á að vera í Reykjavík, Keflavík eða á öðrum stað. Það sem við erum að gera með því að leggja fram fyrirspurnir eins og hv. þm. Jón Gunnarsson gerir hér er að safna upplýsingum fyrir þá umræðu sem við teljum að við þurfum að fara í og til þess að geta tekið þátt í skynsamlegri og málefnalegri niðurstöðu í framtíðinni. Þar vega auðvitað öryggisatriðin þungt svo og hagkvæmni í rekstri og sjónarmið þeirra sem nota völlinn. Ég legg persónulega mikla áherslu á að öllum spurningum varðandi öryggisatriðin í fluginu verði svarað.