131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Rekstrarkostnaður Reykjavíkurflugvallar.

543. mál
[13:12]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég get út af fyrir sig ekki að því gert þó að hv. þingmaður meti það svo að svörin séu rýr í roðinu. Ég gaf upp þær upplýsingar sem fyrir liggja um kostnað við rekstur Reykjavíkurflugvallar. Að sjálfsögðu mun ég ekki gefa upp einhverjar upplýsingar um hluti sem snúa að Keflavíkurflugvelli sem er á forræði annars ráðuneytis, fyrir utan að þar eru í gangi viðkvæmar viðræður við Bandaríkjamenn. Ég tel að það væri afar sérkennilegt ef við hér á hinu háa Alþingi færum að tefla fram einhverjum tilboðum hvað varðar þau efni.

Aðeins til að upplýsa enn frekar um málið þá voru lendingargjöld og vopnaleitargjald 52.279.000 á árinu 2002 en hafa hækkað upp í 66.156.000 á árinu 2004, m.a. vegna þess að innanlandsflugið er að aukast verulega og þar af leiðandi koma inn meiri tekjur án þess að útgjöldin vaxi mjög mikið. Þessi flugvallarstarfsemi er að því leyti að verða hagkvæmari.

Það liggur algjörlega ljóst fyrir að kostnaður við þetta flug, rekstur flugvallarins, er tiltölulega lítill miðað við þær hagsbætur sem við höfum af því að hafa innanlandsflugið á þessu svæði og að geta nýtt það bæði fyrir ferðamenn — það eru fleiri en stjórnmálamenn sem nota flugið — og þá sem stunda atvinnu út um land og í höfuðborginni en búa utan borgarmarka. Það er alveg sama við hverja er talað sem vinna í kringum flugið, (Forseti hringir.) þeir telja að flugvöllurinn sé vel staðsettur í Vatnsmýrinni og það skipti miklu máli fyrir þjóðarbúið að hafa hann þar.