131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Vegrið á Reykjanesbraut.

565. mál
[13:19]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Öryggi á tvöfaldri Reykjanesbraut hefur aukist verulega frá því þetta var eingöngu einfaldur vegur. Það hefði verið full þörf á því að velta fyrir sér vegriði milli akreina meðan eingöngu var um einfalda braut að ræða og koma þannig í veg fyrir að bílar úr gagnstæðum akstursáttum lentu hver framan á öðrum eins og oft vildi gerast á einfaldri Reykjanesbraut.

Það vakti þó athygli mína að ef menn vildu fara þá leið að setja vegrið á Reykjanesbrautina alla leið frá Hafnarfirði til Keflavíkur þá er það ekki ýkja kostnaðarsöm aðgerð, alla vega ef við berum það saman við þann kostnað sem tekur að reka Reykjavíkurflugvöll á ári hverju. Mér sýnist að kostnaður við að setja vegrið í miðjuna og eins vegrið sitt hvorum megin við kantana væri svona um það bil tveggja ára rekstrarkostnaður Reykjavíkurflugvallar. Það dygði til þess. Ef menn teldu það auka öryggi verulega þá bendi ég því á þá fjármuni í þá framkvæmd.