131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Kennslutap í kennaraverkfalli.

473. mál
[14:45]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra vegna kjaradeilu kennara og sveitarfélaga á liðnu hausti þegar verulegur skaði varð á skólagöngu tíu árganga íslenskra barna. Skaðann er að sjálfsögðu hægt að bæta fyrir að hluta, verði lagðar til samræmdar aðgerðir og þeim fylgt eftir með jákvæðum hætti og að þeim fylgi fjármagn sem á skortir til að mæta auknum kennslustundafjölda hjá sveitarfélögunum.

Því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hvaða skólar hafa sótt um viðbótarfjármagn til sveitarfélaga sinna til að bæta upp kennslutap í verkfalli kennara?

2. Mun ráðherra hafa forgöngu um að allir skólar bæti kennslutapið upp? Ef svo er, með hvaða hætti?

3. Mun ráðherra hafa afskipti af því hvernig einstök sveitarfélög bæta upp kennslutapið?

4. Lagði ráðherra til samræmdar aðgerðir til að bæta upp kennslutap? Ef svo er, hverjar eru þær og hvernig var þeim fylgt eftir?

Ljóst er að yfir 1,5 millj. skóladaga fóru í súginn á liðnu hausti og á ábyrgð stjórnvalda að hafa forustu um að bæta börnunum skaðann eins og hægt er með samræmdum hætti. Hæstv. ráðherra svaraði fyrirspurn minni á Alþingi í desember sl. um sama efni um annað mál að hún hefði verið í viðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga, ekki einungis formann þess heldur þá sem koma að fræðslumálum innan sambandsins um hvernig brugðist yrði við afleiðingum verkfalls grunnskólakennara. Þar kom m.a. fram að ýmis sveitarfélög, þar á meðal Reykjavík og Akureyri, hafa sett upp samráðsnefndir til að gera tillögur um með hvaða hætti bæta megi nemendum upp tapið og hvernig skuli brugðist við því.

Þá kom fram að menntamálaráðuneytið hafði sent sveitarstjórnum ósk um greinargerð um með hvaða hætti skólahald yrði skipulagt í einstökum sveitarfélögum út skólaárið og jafnframt að ráðuneytið teldi sjálfsagt að skólar nýttu alla virka daga sem eftir eru af skólaárinu til kennslu, þar á meðal daga sem í venjulegu ári eru notaðir til ýmiss konar annarra starfa. Ráðuneytið mundi kanna hvort og þá með hvaða hætti sveitarfélögin hafi brugðist við í þessu efni.

Að sjálfsögðu er ekki hægt að skylda sveitarfélögin til að bæta nemendum upp tapið vegna verkfallsins. Hins vegar er það á ábyrgð menntamálayfirvalda að leggja til samræmdar tillögur til að bæta upp kennslutapið og sinna eftirlitsskyldu sinni til að lögvarinn réttur barna til menntunar og 170 daga skólaskyldu sé uppfylltur og í hávegum hafður. Séu lagðar til og farið eftir samræmdum aðgerðum til að bæta það tap sem verkfallið olli á skólagöngu barnanna er mikið auðveldara að hafa eftirlit með aðgerðunum og hvernig til hafi tekist og hvar sé að finna skóla sem ekki hafa einhverra hluta vegna treyst sér til eða getað fylgt því eftir.

Því spyr ég hæstv. ráðherra áðurtalinna spurninga um aðgerðir vegna kennslutaps út af verkfalli.