131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Samræmd próf í grunnskólum.

566. mál
[15:23]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vörum mjög sterklega við því að menn fari offari í notkun samræmdra prófa og samanburðarmælinga í grunnskólanum og ekki síður vörum við við tilraunum nú til að troða þessu sama inn í framhaldsskólann.

Gallinn er ekki fyrst og fremst prófin sjálf, heldur hvernig þau eru notuð. Þau eru ekki notuð fyrst og fremst í þágu skólastarfsins sjálfs, heldur af utanaðkomandi aðilum til samanburðar milli skóla og á næsta skólastigi fyrir ofan.

Í drögum að nýrri menntastefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem nú er verið að leggja lokahönd á og verður til afgreiðslu á landsfundi okkar í haust er lagt til að samræmd próf í núverandi mynd verði lögð niður. Í staðinn á að koma réttindaskrá nemenda sem tryggi stöðu þeirra og að menn nálgist þessa hluti fyrst og fremst frá sjónarhóli réttinda nemendanna en ekki ofan frá og með mælingakúnstum af því tagi sem hingað til hafa verið túlkaðar og menn hafa misst út í vitleysu.