131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Samræmd próf í grunnskólum.

566. mál
[15:24]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég veit ekki alveg hvort ég er að gera hér stutta athugasemd eða bera af mér sakir. Hv. þm. Mörður Árnason (Gripið fram í: Gera hvort tveggja.) sagði að ég hefði lýst því á fundi í Flensborgarskólanum í morgun að ég hefði miklar efasemdir um samræmd próf í framhaldsskólum og grunnskólum. Þetta er alls ekki rétt. Ég lýsti því hins vegar yfir og stend við það að ég hef efasemdir um samræmd próf í framhaldsskólum. Það er það sem ég sagði og vitnaði m.a. til þess að ég teldi mikilvægt að framhaldsskólinn væri fjölbreyttur og að skólarnir mættu halda sérkennum sínum. Ég nefndi þar sérstaklega til sögunnar minn gamla skóla, Verslunarskóla Íslands, sem hefur skorið sig úr öðrum menntaskólum á framhaldsskólastigi. Ég sagði ekkert um grunnskóla og samræmd próf í grunnskóla sem við erum að ræða hér. Ég átta mig ekki á því hvers vegna hv. þingmaður vekur athygli á þeim orðum mínum sem sögð voru í Flensborgarskólanum.

Ég minni hv. þingmann á það að Flensborgarskóli er ekki grunnskóli og eðlilegt að þau málefni hafi ekki verið til umræðu þar í morgun.