131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Samræmd próf í grunnskólum.

566. mál
[15:25]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Að mínu viti er nauðsynlegt fyrir okkur að hafa mælistiku á færni og getu nemenda í grunnskóla. Það skiptir öllu máli að hún sé óvilhöll og gefi sem gleggstar upplýsingar um stöðu nemandans miðað við aðra í sama aldursflokki, í öðrum skólum eða í öðru umhverfi. Kennarar og foreldrar fá þá ákveðnar upplýsingar úr þessum könnunum og geta brugðist við ef þeir telja það nauðsynlegt.

Hvort núverandi samræmd próf og framkvæmd þeirra séu sú eina mælistika sem dugar skal ósagt látið en óvilhöll, sanngjörn mælistika á skólastarf er nauðsynleg að mínu viti.