131. löggjafarþing — 82. fundur,  2. mars 2005.

Stuðningur Íslands við þjálfun írakskra öryggissveita.

[15:40]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það verður að segjast eins og er að ríkisstjórn Íslands eru mislagðar hendur í frómum áætlunum sínum um aðstoð við uppbygginguna í Írak. Það vita allir að þar er þörf á miklum fjármunum, mikilli uppbyggingu og aðstoð sem tekur ekki vikur eða mánuði heldur mörg ár. Þar bíða mörg verkefni, samgöngur, fjarskipti, skólar, heilsugæsla, vatnsveiturnar og áfram mætti halda.

Staðan í Írak er mjög slæm og það vekur furðu, frú forseti, að það skuli hafa sérstakan forgang hjá ríkisstjórn Íslands að veita fé til þjálfunar öryggissveita og vopnaflutnings. Ég hefði haldið að við hefðum eitthvað betra við þessa peninga að gera, að við gætum varið þeim í verðugri og betri verkefni vegna þess m.a. að við höfum ekkert vit á þessum málum. Látum aðra um vopnaflutningana og vopnaburðinn, höldum okkur við verkefni þar sem við höfum eitthvað fram að færa og styrkjum þau dyggilega til frambúðar.

Svona framlög eru ekkert annað en popúlismi, popúlismi innan NATO og popúlismi út á við. Við eigum að vera í verkefnum sem máli skipta, frú forseti, og það er einfaldlega ekki boðlegt að skattfé Íslendinga sé varið til vopnaflutnings og þjálfunar hermanna.