131. löggjafarþing — 82. fundur,  2. mars 2005.

Stuðningur Íslands við þjálfun írakskra öryggissveita.

[15:53]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er gott til þess að vita að það er ekki alveg allt breytilegt í heiminum því að nú eru hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs aftur farnir að ræða um hervæðingu landans eftir örlítið hliðarspor í síðustu viku.

Flestum er ljóst að innrásin í Írak er liðin. Hvaða skoðun svo sem fólk hafði á henni verðum við að horfa fram á við. Fram undan er gríðarlega mikið uppbyggingarstarf í landinu og er það skylda okkar að hjálpa til við það og hjálpa þjóðinni að byggja upp lýðræði og frið í Írak. Írakar vilja án efa lýðræði, og lýðræðið krefst öryggis. Við eigum að veita þeim þá aðstoð eins og allir nágrannar okkar eru að gera og til þess ætlast Sameinuðu þjóðirnar af öðrum.

Ég fagna sérstaklega orðum hæstv. utanríkisráðherra varðandi framlag okkar sem mun beinast að konum og börnum en þau verða oftast verst úti þegar slík átök eiga sér stað. Meginatriðið er að Írakar eru í fyrsta skipti að sjá lýðræði með kostum þess og göllum og því ber að fagna. Hlutverk okkar, líkt og annarra þjóða, er að vera í landinu þar til landsmenn sjálfir geta gætt öryggis síns.