131. löggjafarþing — 82. fundur,  2. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:10]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sameining Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands tekur til grundvallaratriða í fyrirkomulagi háskólastigsins til framtíðar. Samfylkingin telur að sameining þessara skóla geti haft í för með sér ýmis sóknarfæri og lýstum við því strax í upphafi að við vildum skoða sameiningu skólanna með jákvæðum og opnum hug sem og aðra kosti sameiningar á háskólastigi.

Hins vegar höfum við engin svör fengið við stórum grundvallarspurningum um tilvist og framtíð hins nýja skóla, t.d. um val nemenda um tækninám í opinberum skólum annars vegar og einkareknum skólum gegn gjöldum hins vegar, hvort eigi að mæta því með uppbyggingu tæknináms samhliða við annan skóla. Þá er ekki gert ráð fyrir aðkomu kennara og nemenda að háskólaráði hins nýja skóla.

Meginmálið snýst þó að okkar mati um rekstrarform hins sameinaða skóla þar sem lagt er til að skólinn verði einkahlutafélag en ekki sjálfseignarstofnun líkt og hefð er fyrir. Er það einsdæmi að því er virðist í okkar heimshluta þegar kemur að rekstri akademískrar stofnunar á háskólastigi.

Þarna er tekin óþörf áhætta að okkar mati og engin rök hafa komið fram fyrir kostum þess rekstrarforms umfram sjálfseignarstofnunarformið. Þetta rekstrarform, einkahlutafélag, getur vegið að akademísku frelsi í skólastarfi sem er háskólum ekki bara eiginlegt heldur nauðsynlegt. Engin rök hafa komið fram fyrir því sem sýna fram á annað eða kosti þess umfram sjálfseignarstofnanir. Því flytjum við breytingartillögu við lögin þar sem lagt er til að fái einkaaðilar heimild til að stofna háskóla og reka skuli hann vera sjálfseignarstofnun. Samfylkingin skilyrðir því stuðning sinn við málið við það að tillaga okkar verði samþykkt. Verði hún felld munum við sitja hjá við lokaatkvæðagreiðsluna og efnisgreinar hennar.

Sé staðreyndin sú að sjálfseignarstofnunarformið henti ekki fullnægjandi er eðlilegra að okkar mati að ráðast í endurskoðun laga um sjálfseignarstofnanir en að fara út í það órökstudda flan sem einkahlutafélag um akademíska háskólastofnun er, rekna að stærstum hluta fyrir opinbert fé.