131. löggjafarþing — 82. fundur,  2. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:13]

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Skipulag háskólamenntunar kemur öllu þjóðfélaginu við. Það er þjóðfélagið, það eru skattborgarar sem að uppistöðu greiða fyrir rekstur þeirra stofnana sem sinna háskólamenntun hér á landi. Það skiptir miklu máli að við verjum okkar sameiginlegu fjármunum á skynsamlegan og markvissan hátt.

Þetta frumvarp er vanhugsað og vinnubrögðin ekki í neinu samhengi við mikilvægi þessa máls. Hér er verið að stefna almennri menntun á háskólastigi inn í hlutafélagaform og opna fyrir innheimtu á skólagjöldum fyrir almennt nám á háskólastigi.

Fulltrúar námsmanna við Tækniháskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík hafa hvatt Alþingi til að hraða afgreiðslu þessa máls. Námsmennirnir vilja skiljanlega fá fast land undir fætur en gagnvart þessu fólki, námsmönnum í Háskólanum í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands, eru þetta mjög ámælisverð vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar, að setja málið svo óvandað fram.

Af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum við flutt frumvörp sem eiga að tryggja gjaldfrjálst nám á háskólastigi — hvað var hæstv. landbúnaðarráðherra hér að umla? Þær tillögur hafa því miður ekki fengið stuðning meiri hlutans á Alþingi. Fyrir okkar leyti styðjum við sjálfseignarhugmynd Samfylkingarinnar sem hér hefur verið sett fram við þessar aðstæður en getum að sjálfsögðu ekki stutt þetta fráleita frumhlaup ríkisstjórnarinnar.