131. löggjafarþing — 82. fundur,  2. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:15]

Gunnar Birgisson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er um mjög merkt og þarft mál að ræða, að sameina Tækniháskóla Íslands við Háskólann í Reykjavík. Frumvarpið fjallar um það að leggja niður Tækniháskóla Íslands.

Stjórnarandstaðan hefur verið á móti þessu máli frá upphafi. (Gripið fram í: Rangt.) Hún hefur spurt margra spurninga og fengið svör við þeim öllum. Sumt hefur hún ekki viljað heyra og annað hefur hún ekki nennt að lesa (Gripið fram í.) Það eina sem þarf, virðulegi forseti, er að safna fyrir heyrnartækjum handa þessu ágæta fólki.

Ég tel margt í þessu máli hafa orðið þinginu til vansa. Það er búið að þæfa það í málþófi og var reynt að skaða þennan nýja skóla eins og hægt er. Stjórnarandstaðan hefur verið að gagnrýna kannski þrjú atriði.

Í fyrsta lagi vildi hún láta kanna betur sameiningu Tækniháskólans við Háskóla Íslands.

Í öðru lagi vildi hún alls ekki hafa einkahlutafélag. Nei, það yrði að vera sjálfseignarstofnun og ekkert annað.

Síðan var það með akademískt frelsi. Það er búið að svara því hvað eftir annað, og á fundi í nefndinni í morgun kom rektor hins nýja skóla, Guðfinna Bjarnadóttir, og svaraði þessu mjög skilmerkilega.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa öll talað um það að sameina Tækniháskólann Háskóla Íslands. Ágætu, virðulegu þingmenn, þið sitjið uppi með þetta mál og þetta er ykkur til vansa. (Gripið fram í.) Auðvitað legg ég til að þetta frumvarp verði samþykkt. Þið eigið að vera með okkur í stjórninni á þessu máli.

(Forseti (JóhS): Það er mikilvægt að hv. þingmenn haldi sig við það að ræða hér um atkvæðagreiðsluna sjálfa.)