131. löggjafarþing — 82. fundur,  2. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:17]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við í Frjálslynda flokknum hefðum svo sannarlega viljað geta staðið með þessu frumvarpi og veitt því brautargengi. Því miður hafa vinnubrögðin í kringum það verið með ólíkindum sem má m.a. merkja á óróleikanum hér við atkvæðaskýringar, hv. formanni menntamálanefndar tekst bara ekki að halda á málinu þannig að nokkur friður geti verið um það. Þetta er mál sem allir ættu að geta sameinast um en því miður virðist eins og hvorki sé hægt að halda málefnalega á málum né undirbúa þau með þeim hætti að sómi sé að fyrir þingið.

Hv. þingmaður talaði einhvern tíma um að einhver þyrfti að fara á mannasiðanámskeið. Ég legg til að hann taki sér far með þeim ágæta þingmanni og setjist á skólabekk í mannasiðum.

Það sem við í Frjálslynda flokknum höfum sett út á þetta frumvarp er einmitt það að ekki skuli vera reynt að sameina í enn frekari mæli og reynt að ná fram hagræðingu í kennslu raungreina. Jafnvel mætti skoða hvort ekki ætti að sameina tæknifræðina í enn frekari mæli inn í Háskóla Íslands í stað þess að fara inn í Háskólann í Reykjavík. Ég hefði talið að það mætti skoða það. Hvers vegna má ekki að skoða það vandlega og fara yfir málið í staðinn fyrir að keyra það hér í gegn? Ég veit það ekki. Hitt veit ég að einungis voru tveir fundir haldnir í menntamálanefnd um málið.

Við erum að tala um mál sem skiptir þjóðina verulega miklu, við erum að tala um tæknifræðimenntun. Það er nú eitt af því sem við í Frjálslynda flokknum höfum lagt áherslu á, (Gripið fram í.) að meiri áhersla sé lögð, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, á það að efla bæði tækni- og iðnnám. Ég tel fulla þörf á því fyrir þjóðfélagið.

Í öðru lagi lögðum við áherslu á það að skoða þætti sem hafa komið upp varðandi akademískt frelsi og því miður hafa ekki komið fram þau svör sem við höfum óskað eftir.

Í þriðja lagi var spurning um skólagjöld.

Að öðru leyti er allt útlit fyrir að þessi skóli verði settur á stofn, og ég vona svo sannarlega að hann eigi eftir að nýtast þjóðfélaginu og ég óska honum velfarnaðar.

(Forseti (JóhS): Forseti vill ítreka að það er ákaflega mikilvægt að þingmenn haldi sig við það að ræða um atkvæðagreiðsluna en misnoti ekki þingsköpin með því að taka upp efnisumræður um frumvarpið sjálft.)