131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Sala Símans og grunnnetið.

[10:36]

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það sé rétt sem ég hef heyrt að Samkeppnisstofnun hafi skilað skýrslu eða greinargerð til hæstv. ríkisstjórnar um að skilja grunnnetið frá eða réttara sagt að það sé selt með. Hefur þessi skýrsla verið gerð og ef svo er, er þá hægt að fá að sjá þá skýrslu og gæti hæstv. forsætisráðherra sagt okkur hvert álit Samkeppnisstofnunar hafi verið á því að selja grunnnetið með Símanum eða selja Símann í heilu lagi?

Í öðru lagi þá er það rétt sem enn einu sinni er að koma fram í skoðanakönnun að stór hluti landsmanna er á móti því að selja Símann og grunnnetið með og er það ansi athyglisvert hve framsóknarmenn eru stór hluti í þeim hópi. Auðvitað heyrðum við það í umræðum frá landsfundi Framsóknarflokksins að þar innan húss er mikil andstaða við þá ætlun ríkisstjórnarinnar að gera það.

Má ég minna á, virðulegi forseti, að Framsókn var á upphafsárum síðasta kjörtímabils andstæð því að grunnnetið yrði selt með Símanum en það gerðist svo á ákveðnum tímapunkti að Sjálfstæðisflokkurinn tók Framsóknarflokkinn í karphúsið og þvingaði hann til að fallast á að grunnnetið yrði selt með.

Hæstv. forsætisráðherra talar um samkeppni á markaðnum. Hún er ekki þannig í reynd. Til eru dæmi um að Síminn sé með mjög háa verðlagningu til sprotafyrirtækja sem vilja selja litlum byggðarlögum aðgang að háhraðatengingu, á því t.d. að setja sendi í mastur eða fá aðstöðu til að stinga viðkomandi sendi í samband í húsi Símans. Ef það eru ekki samkeppnishindrandi aðgerðir, hvað er það þá, virðulegi forseti?