131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Sala Símans og grunnnetið.

[10:43]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að leiðrétta hæstv. forsætisráðherra hvað það varðar að Alþingi samþykkti ekki að selja Símann í heilu lagi. Alþingi samþykkti að selja hlutabréf í Símanum en kvað ekkert á um hvernig það yrði gert frekar þannig að þeim sem selja Símann er í lófa lagið að skipta honum upp. Ég vildi hafa þetta á hreinu og leiðrétta það sem rangt var farið með hér í umræðunni.

Hins vegar liggur í augum uppi að Síminn er yfirburðafyrirtæki á fjarskiptamarkaðnum og hefur í reynd svo markaðsráðandi stöðu að með þeirri fyrirætlan sem nú er uppi, að selja Símann í einu lagi, er í reynd verið að einkavæða einokun eða mjög markaðsráðandi stöðu á þessum markaði. Ég geld mikinn varhuga við því að sú leið skuli vera farin.

Það veldur mér einnig miklum áhyggjum að í núverandi reglum gilda engar reglur um hvernig farið skuli með sölu ríkiseigna. Það gilda engar lagareglur um það. Það eru aðeins reglur einkavæðingarnefndar sem eru þannig úr garði gerðar að nefndin sjálf getur vikið frá þeim telji hún ástæðu til. Ég held að það sé einfaldlega þannig í samfélaginu að það trúi því ekki nokkur maður að komi til þess að Síminn verði seldur þá verði hann seldur á opnum markaði. Saga helmingaskiptaflokkanna sem nú fara með völd er þess eðlis að það gerir enginn ráð fyrir öðru en að samið verði sérstaklega um það hver fái Símann og hver ekki. Þess vegna vil ég taka undir með þeim sem hafa varað við því sem hér er á ferðinni og að mjög mikilvægt sé að allt í kringum sölu Símans verði opið, gegnsætt, og að við þurfum ekki að horfa upp á sams konar aðfarir og þegar ríkisbankarnir voru seldir á sínum tíma þegar flokkarnir skiptu því með sér hver fengi hvað.

Virðulegi forseti. Við viljum ekki sjá svona uppákomur oftar.