131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Sala Símans og grunnnetið.

[10:45]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við höfum rætt um þetta oft áður, bæði í utandagskrárumræðum og víðar. Þar gat ég þess að grunnnetið er varla skilgreint lengur vegna örrar tækniþróunar; stærðfræðilegrar pökkunar gagna og vegna sífellt nýrrar tækni, gervitunglatækni, ljósleiðara og koparstrengja er ekki hægt að tala um eitthvað grunnnet í þeim skilningi að það sé eitthvert kerfi sem er eitt og sér. Þróunin er mjög breytileg og ef menn líta tíu ár aftur í tímann er allt önnur staða uppi í dag og eftir tíu ár verður uppi allt önnur staða en nú er. Ef grunnnetið er ekki selt með og stofnað um það fyrirtæki er hætt við því að það fyrirtæki mundi negla sig niður á eina lausn þannig að þróunin mundi stöðvast hér á landi.

Ég held að þróunin, eins og ég gat um fyrir nokkrum dögum, muni leiða til þess að besta verðið fæst fyrir neytendur og samkeppnin er tryggð vegna þess að við búum í heimi þar sem gervitungl svífa yfir okkur og við erum komin með ókeypis símtöl til útlanda í gegnum netið. Það er því ótrúlega mikil samkeppni í gangi og Síminn mun þurfa að svara henni bæði innan lands og erlendis frá þannig að ég hef ekki þær áhyggjur sem aðrir hafa af því að selja hið svokallaða grunnnet með Símanum.