131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Sala Símans og grunnnetið.

[10:47]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Með sölu Símans með grunnnetinu er verið að selja einokunaraðstöðu. Vissulega fær ríkið fleiri milljarða fyrir það en í raun tapa allir viðskiptavinir Símans vegna þess að án efa mun samkeppnin verða minni og Síminn verður í einokunaraðstöðu. Eitthvað fær hæstv. forsætisráðherra meira til að spandera, kannski í sendiráð og eitthvað slíkt, eitthvert gæluverkefni. Við megum ekki gleyma því að þegar samþykkt var að selja Símann var einnig samþykkt að fjölga bæði hjá Samkeppnisstofnun og Póst- og fjarskiptastofnun, í eftirlitið með þeirri starfsemi, en það hefur verið svikið.

Hvorugur stjórnarflokkurinn meinar neitt með því að koma eigi á samkeppni á fjarskiptamarkaði. Það sást best á því að þegar ég spurði hæstv. fjármálaráðherra hvort Síminn færi að lögum og samþykktum sem gerðar hafa verið um starfsemi hans hvað varðar samkeppnissvið og hvort hann hafi nýtt sér einokunaraðstöðu í samkeppni við þá sem eiga í samkeppni við Símann, þá fékk ég engin svör. Það er áhyggjuefni að menn leggi ekki meiri áherslu á að koma á samkeppni í þessum málum. Síminn hefur jafnvel orðið uppvís að því að misnota aðstöðu sína hvað varðar litla aðila á markaði.

Ég óttast mjög að stjórnarflokkarnir ætli að skipta fyrirtækinu á milli sín. Þeir eru best þekktir af verkum sínum þegar þeir skiptu bönkunum á milli velunnara flokka sinna og spor flokkanna hræða í einkavæðingu hingað til.