131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Sala Símans og grunnnetið.

[10:53]

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Þær ræður sem fluttar hafa verið af hv. stjórnarandstöðu einkennast mikið af upphrópunum sem afskaplega takmarkaðar innistæður eru fyrir. Ein þeirra er t.d. sú að hér fari ríkisstjórnarflokkarnir og beiti valdi. Í hverju felst sú misbeiting valds? Að framfylgja samþykktum Alþingis. Málið var samþykkt á Alþingi af meiri hluta þingsins. Það getur tæpast kallast misbeiting valds.

Í annan stað er talað um að selja eða ekki selja með eða án grunnnets. Afstaða Vinstri grænna liggur fyrir en fróðlegt væri að heyra hver afstaða Samfylkingarinnar er til málsins. Hún liggur ekki ljós fyrir.

Menn tala um þvinganir. Ég minnist þess að hafa einmitt verið í samgöngunefnd þegar málið kom til vinnslu þar 2001. Ekki man ég eftir þvingunum þar. Hins vegar komu fjölmargir sérfræðingar á fund nefndarinnar, sérfræðingar sem eiga ekki hagsmuna að gæta. Ég nefni fulltrúa háskólans. Ég nefni fulltrúa Póst- og fjarskiptastofnunar. Hvað sögðu þeir sérfræðingar? Að það væri óðs manns æði að aðskilja grunnnetið jafnóljóst og það er í skilgreiningu frá öðrum þáttum. Það sögðu fulltrúar háskólans og Póst- og fjarskiptastofnunar.

Þá skulum við líka spyrja: Hvað er að gerast í öðrum ríkjum Evrópu? Alls staðar í Evrópu er ríkið að selja símafyrirtæki sín vegna þess að það er að koma upp ný tækni, ný fyrirtæki og bullandi samkeppni. Alls staðar í Evrópu selja menn grunnnetið með. Svo koma menn hér og segja: Við erum svo sérstök á Íslandi að það hljóta að vera aðrar aðstæður hér en í öllum öðrum Evrópuríkjum. Þetta er sama rödd og heyrðist í Albaníu á sínum tíma.

Menn fullyrða að Síminn sé einokunarfyrirtæki þrátt fyrir þá staðreynd að t.d. á ADSL-markaðnum er Og Vodafone með 46% markaðshlutdeild og hefur fengið að nota grunnnetið. Það getur ekki talist einokun.