131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[11:01]

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég sé mig tilneyddan til að kveðja mér hljóðs um fundarstjórn forseta vegna þess að ég beindi ákveðinni fyrirspurn undir þessum lið sem við vorum að ræða áðan til hæstv. forsætisráðherra sem hann svaraði ekki. Það er mjög veigamikið, virðulegi forseti, að hæstv. forsætisráðherra svari þeirri spurningu sem hér hefur verið lögð fram um þetta. Þetta er veigamikið atriði gagnvart því máli sem forseti leyfði að yrði rætt hér áðan í þær 20 mínútur sem voru til ráðstöfunar undir liðnum um störf þingsins. Það er hárrétt sem kom fram hjá sitjandi þingforseta að þetta er sú þróun sem hæstv. forseti þingsins, Halldór Blöndal, hefur hvatt til.

Virðulegi forseti. Ég verð að árétta spurningu mína, gera þá athugasemd og vera óánægður með það að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki svara hinni einföldu spurningu: Hefur Samkeppnisstofnun skilað til ríkisstjórnar, forsætisráðherra eða fjármálaráðherra skýrslu um alvarlegar afleiðingar (Forseti hringir.) þess að grunnnetið verði selt með Símanum?

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna hv. þingmann um það að halda sig við efni þessa dagskrárliðar, um fundarstjórn forseta, og fara ekki í efnisumræðu undir þessum dagskrárlið, misnota ekki dagskrárliðinn til þess.)