131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[11:03]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mótmæli þeim skilningi sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur á þeim lið sem við vorum að ræða áðan, þ.e. liðnum um störf þingsins. Það er ekkert eðlilegra en að hér ræði menn um störf þingsins, um þau mál sem fyrir liggja. Nú liggja t.d. fyrir tvö óafgreidd mál vegna sölu Símans og það er full ástæða til þess að þingnefndir taki þau mál núna til afgreiðslu og ákveði hvernig með þau skuli fara eftir að þessi mál koma upp eins og þau eru að gera þessa dagana. Ég held að sú krafa hljóti og eigi eðlilega að geta komið fram hér við umræður um störf þingsins.

Þess vegna finnst mér algjörlega eðlilegt að menn geti farið í umræðu af því tagi sem fór fram hér áðan og ekkert við því að segja.