131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[11:15]

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki út í efnislega umræðu um það sem við ræddum áðan undir liðnum athugasemdir um störf þingsins. Ég vek einu sinni enn athygli á því að hæstv. forsætisráðherra svaraði ekki einfaldri spurningu, hvorki játandi né neitandi, sem er grundvallaratriði. Ef Samkeppnisstofnun hefur skilað skýrslu, áliti um söluna á Símanum og grunnnetinu til ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra, á auðvitað allur þingheimur, allir þingmenn, að fá að sjá þau gögn. Þess vegna spurði ég hæstv. forsætisráðherra, einmitt nú þegar hann er hér viðstaddur, út í þetta atriði. Þess vegna vil ég enn einu sinni vekja athygli á því að hæstv. forsætisráðherra treysti sér ekki til að koma í ræðustól á Alþingi og svara þessari einföldu spurningu um skýrsluna eða álitsgjöfina frá Samkeppnisstofnun, hvorki játandi né neitandi.

Ég verð þá, virðulegi forseti, að nota aðrar leiðir til að fá svar við þessu ef hæstv. forsætisráðherra, sem nú er farinn úr salnum en ég sé að situr í næsta herbergi, treystir sér ekki til að svara þessu fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar.