131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[11:17]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir skýrslu samstarfsráðherra um störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2004.

Eins og mörg undanfarin ár er þessi skýrsla unnin í góðri samvinnu allra ráðuneyta og gefur hún gott yfirlit yfir það gróskumikla og gefandi starf sem við Íslendingar tökum þátt í með norrænu frændþjóðunum. Síðastliðið ár var sérstakt í norrænu samstarfi fyrir okkur Íslendinga vegna þess að við sátum að þessu sinni við stjórnvölinn í Norrænu ráðherranefndinni. Þessu fylgir aukið starfsálag í ráðuneytum en unnið var samkvæmt metnaðarfullri formennskuáætlun sem bar yfirskriftina Auðlindir Norðurlanda – lýðræði, menning, náttúra. Með auðlindum var átt við norræna samfélagsgerð, félagslegar aðstæður á Norðurlöndum, sameiginlegan menningararf Norðurlandabúa og náttúruauðlindirnar. Á árinu höfðum við frumkvæði að því að skipuleggja meira en 30 norræna viðburði, ráðstefnur, fundi og samstarfsverkefni sem allir tengdust yfirskrift formennskuáætlunarinnar með einum eða öðrum hætti. Segja má að Ísland hafi sett nokkur málefni sérstaklega á oddinn og hljóta þau að standa upp úr nú þegar litið er um öxl.

Ég nefni sérstaklega greiningu á stöðu lýðræðis á Norðurlöndum, m.a. út frá valdaúttektum sem gerðar voru í Noregi og Danmörku fyrir nokkrum árum. Ég vil einnig nefna eftirfylgni við skýrsluna „Vestur-Norðurlönd í norrænu samstarfi“ sem fjallar annars vegar um nauðsyn þess að efla vestnorrænt samstarf og hins vegar um að Norðurlönd móti stefnu um nánara samstarf við grannsvæðin við Norður-Atlantshaf.

Sem þriðja meginþáttinn vil ég nefna afnám stjórnsýsluhindrana á norrænum landamærum en Paul Schlüter, fyrrverandi forsætisráðherra Dana, hafði eins og árið áður með höndum að samræma aðgerðir fagráðherra nefndanna í þeim efnum.

Að tilhlutan Íslands skipuðu norrænu ríkisstjórnirnar í upphafi ársins svokallaða lýðræðisnefnd sem falið var að rannsaka hvaða vandi steðjaði að norrænum lýðræðissamfélögum ef litið væri til næstkomandi 25 ára. Með því að beina kastljósinu að lýðræðinu vildi Ísland mæta áskorun sem Norðurlandaráð setti fram á þemaþingi sínu sem haldið var í Reykjavík árið 2002. Þingið fjallaði um lýðræði sem stjórnarform og var þar m.a. bent á að mikilvægt væri að halda lýðræðisumræðunni lifandi. Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur og fyrrverandi þingmaður, var skipuð formaður nefndarinnar en önnur Norðurlönd og sjálfstjórnarsvæðin þrjú áttu hvert sinn nefndarmanninn. Nefndin fékk nokkurt frelsi til að afmarka viðfangsefni sitt og niðurstaðan varð að beina sjónum einkum að eftirtöldum atriðum: Staðbundnu lýðræði eins og það birtist á sveitarstjórnarstiginu og áhrifum verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga á lýðræðisferli, þátttöku borgaranna í stjórnmálum og nýjum leiðum til að hafa áhrif og möguleikum til að styrkja lýðræði með notkun upplýsingatækni.

Árið 2003 gerðu bæði Danir og Norðmenn valdaúttektir hjá sér og lá það beint við að nefndin tæki mið af niðurstöðum þeirra. Auk þess studdist nefndin við þá vinnu sem unnin hafði verið í Svíþjóð árið 2001 við að móta stefnu til að styrkja lýðræðið þar í landi. Lýðræðisnefndin lauk störfum í byrjun árs 2005 með því að senda frá sér vandaða skýrslu sem ég ásamt formanni nefndarinnar kynnti fyrir fjölmiðlum hér fyrir réttum mánuði. Í skýrslunni eru margar góðar ábendingar og tillögur sem beint er til norrænu ríkisstjórnanna og sjálfstjórnarsvæðanna. Megintillagan er þess efnis að Norðurlönd og sjálfstjórnarsvæðin móti hvert um sig eigin stefnu til að treysta lýðræðið. Slík stefna á að hafa það að markmiði að jafna aðgengi borgaranna að lýðræðislegum ákvörðunum, bæði á sveitarstjórnarvettvangi og á landsvísu. Nefndin telur að með markvissri lýðræðisstefnu megi t.d. koma í veg fyrir þann lýðræðishalla sem myndast þegar greinilegur munur er á þátttöku mismunandi þjóðfélagshópa í kosningum. Nefndin telur og nauðsynlegt að skapaðar verði forsendur til þess að auka pólitíska virkni almennings á Norðurlöndum, ekki aðeins á kjördag heldur allt kjörtímabilið. Þá leggur lýðræðisnefndin til að önnur Norðurlönd fari að fordæmi Noregs og Danmerkur og láti gera valdaúttektir hjá sér.

Það er tillaga nefndarinnar að gerðar verði reglulegar samanburðarrannsóknir á stöðu lýðræðis á Norðurlöndum til að hægt sé að fylgjast með ástandi þess frá einum tíma til annars. Í nokkrum landanna, þar á meðal Íslandi, vantar tölulegar upplýsingar til að hægt sé að gera norrænan samanburð um ýmsa þætti sem snúa að þátttöku borgaranna í lýðræðisferlinu. Nefndin telur brýnt að bæta úr þessu.

Lýðræðisnefndin leggur til að sveitarfélög á Norðurlöndum nýti sér upplýsingatæknina betur til að efla þátttökulýðræði og þróa rafrænt samráð, umræðukerfi og skoðanakannanir meðal almennings. Í því sambandi bendir nefndin á að hin svokallaða stafræna gjá sé augljós lýðræðisvandi sem taka þurfi á í opinberri stefnu um upplýsingatækni. Ég hef kynnt skýrsluna og tillögur hennar fyrir ríkisstjórninni og í framhaldi af því var tekin ákvörðun um að senda hana til stjórnarskrárnefndar með beiðni um að hún skoði tillögur nefndarinnar með tilliti til viðbragða. Ég geri ráð fyrir því að sumar af tillögunum skírskoti til verkefna nefndarinnar.

Skýrslan Vestur-Norðurlönd í norrænu samstarfi var lögð fram í ráðherranefndinni á miðju ári 2003 og samþykkt af samstarfsráðherrunum. Í skýrslunni voru settar fram tillögur sem miðuðu að því að styrkja vestnorrænt samstarf sem og samstarf Norðurlanda við grannsvæði á Norður-Atlantshafssvæðinu. Skýrslan var send fagráðherrunum með hvatningu um að þær fylgdu tillögum hennar eftir. Á formennskuárinu einsettum við okkur að knýja á um að tillögur skýrslunnar kæmu til framkvæmda. Í upphafi árs var Páll Pétursson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, fenginn til að hafa eftirlit með því starfi.

Unnið var að mörgum vestnorrænum verkefnum á árinu. Tímans vegna minnist ég aðeins á tvö viðamestu verkefnin.

Stærsta vestnorræna verkefnið sem ráðist var í á árinu var úttekt og greining á samgöngum milli landanna á vestnorræna svæðinu. Það var Háskólinn á Akureyri sem annaðist þá úttekt og í júlí birtust niðurstöður í skýrslunni Flug- og sjóflutningar á Vestur-Norðurlöndum – Greining og framtíðarspá. Skýrslan var kynnt fyrir samgönguráðherrum landanna á fundi þeirra í ágúst. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem óháður rannsóknaraðili gerir slíka úttekt fyrir umrætt svæði.

Samgöngumálin hafa löngum brunnið heitt á íbúum svæðisins og var vitað fyrir fram að víða væri pottur brotinn. Á þetta einkum við um Grænland og Færeyjar. Í skýrslunni er m.a. bent á að hömlur á flugi til og frá Grænlandi ásamt óhemjuháum ferðakostnaði standi í vegi fyrir framförum þar ekki hvað síst í ferðaþjónustu. Flugsamgöngur milli vesturstrandar Grænlands, þar sem höfuðstaðurinn Nuuk er, og Íslands eru nú í algeru lágmarki og skýrslan bendir jafnframt á nauðsyn þess að fjölga ferðum milli Íslands og Færeyja. Afar sláandi er sú staðreynd að það skuli vera langtum dýrara að fljúga frá Reykjavík til Nuuk en frá Reykjavík til Peking í Kína. Þó er Grænland það land sem stendur okkur næst í landfræðilegu tilliti.

Skýrsluhöfundar vekja athygli á því að bæði á Grænlandi og í Færeyjum sé utanlandsflug að mestu leyti bundið við Danmörku. Nánast allar leiðir út í heim liggja í gegnum Kaupmannahöfn, enda er frjálsræði í flugi frá Grænlandi og Færeyjum það minnsta sem þekkist í Vestur-Evrópu. Þessar aðstæður koma m.a. í veg fyrir að Grænlendingar geti notið góðs af auknum ferðamannafjölda til Íslands. Úttekt Háskólans á Akureyri leiddi einnig í ljós að nú er vaxandi samkeppni í vöruflutningum á sjó á vestnorræna svæðinu og eru það einkum Íslendingar og Færeyingar sem etja þar kappi saman.

Skýrslan um ástand samgöngumála á vestnorræna svæðinu er að mínu mati þarft og mikilvægt innlegg í alla umræðu um samgöngumál á svæðinu. Þá vil ég einnig nefna viðamikla úttekt á starfsemi NORA, norrænu Atlantshafsnefndarinnar, sem gerð var á árinu en í fyrrnefndri skýrslu um vestnorrænt samstarf var hvatt til þess að ráðist yrði í þetta verkefni. NORA er svæðissamstarf norrænu ráðherranefndarinnar á Vestur-Norðurlöndum sem tekur til Íslands, Grænlands, Færeyja og strandhéraða í Norður-Noregi. Tilgangurinn var að kanna hvort NORA gæti tekið að sér aukið hlutverk með því að samræma samstarf þeirra landa og svæða sem eiga sérstakra hagsmuna að gæta á Norður-Atlantshafssvæðinu. Danskt ráðgjafarfyrirtæki sá um úttektina og var niðurstaðan mjög jákvæð fyrir NORA. Þrátt fyrir litla fjármuni hefur NORA tekist vel upp við að halda utan um samstarfið á svæðinu með myndun tengslaneta milli lítilla og meðalstórra fyrirtækja og styrkveitingum til samstarfsverkefna.

Í skýrslu ráðgjafanna var jafnframt á það bent að ef NORA ætti að vera þess umkomið að stækka landfræðilegt athafnasvæði sitt yrði með einhverjum hætti að renna styrkari stoðum undir starfsemina. Þrjár mismunandi leiðir voru lagðar til og eru þær nú til skoðunar hjá ráðherranefndinni um byggðamál. Mikill áhugi er meðal granna okkar á Norður-Atlantshafssvæðinu að koma á nánara samstarfi um sameiginleg hagsmunamál. Þau svæði sem þarna eiga hlut að máli eru einkum Atlantshafsfylkin í Kanada, Skotland og skosku eyjarnar ásamt Írlandi og Norður-Írlandi. Ég er því bjartsýn á framtíð NORA. Ef rétt verður á málum haldið er ég þess fullviss að þetta vestnorræna svæðasamstarf ráðherranefndarinnar getur tekið að sér það samræmingarhlutverk sem talin er þörf fyrir á þessu stóra svæði.

Efling vestnorræna svæðasamstarfsins sem og nánara samstarf norrænu ráðherranefndarinnar við grannsvæðin í vestri eru mál sem við Íslendingar höfum talað sérstaklega fyrir í norrænu samstarfi. Þessum málum héldum við á lofti bæði árið 1999, þegar við fórum síðast með formennsku, og einnig nú á því formennskuári sem var að líða. Mörg þau verkefni sem unnið var að á árinu tókust vel og útlit er fyrir að áfram verði unnið að þeim. Önnur tókust síður vel en voru samt sem áður tilraunarinnar virði. Það var ekki von til þess að öflugt Norður-Atlantshafssamstarf sprytti fullskapað fram á sjónarsviðið að loknu þessu formennskuári. Samstarf átta þjóða er þyngra í vöfum en svo og það tekur lengri tíma að vinna málunum fylgi. En það er ánægjulegt að Danir sem nú hafa tekið við stjórnartaumunum af okkur skuli hafa það meðal forgangsmála sinna að vinna áfram að vestnorrænu áætluninni. Ég er þess vegna bjartsýn á að málefni Norður-Atlantshafsins séu nú komin til að vera á málefnaskrá norræns samstarfs.

Afnám stjórnsýsluhindrana á norrænum landamærum var áfram forgangsmál í norrænu samstarfi á síðasta ári. Þó nokkur árangur hefur náðst við að einfalda og samræma reglur og draga úr óþarfa skriffinnsku þegar Norðurlandabúar flytjast innan svæðisins vegna náms eða starfa. Þannig var t.d. nýr samningur um almannaskráningu undirritaður á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í byrjun nóvember. Hann mun m.a. einfalda mjög úthlutun kennitölu til manna sem flytjast frá einu norrænu ríki til annars. Hér er gott dæmi um árangur í norrænu samstarfi sem fjölmargir Norðurlandabúar munu fljótlega verða áþreifanlega varir við.

Á árinu hófst vinna við að skilgreina og afmarka þær hindranir sem verða á vegi þeirra sem vilja stunda viðskipti yfir norrænu landamærin. Þessi mál hafa oft komið til umræðu á vettvangi iðnaðarráðherranna en hér er um að ræða umtalsvert vandamál fyrir atvinnulífið. Í nýlegri könnun sem gerð var meðal fyrirtækja á Norðurlöndum kom fram að 77% þeirra sögðust hafa fundið fyrir hindrunum í viðskiptum á milli landanna. Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni var falið að gera nánari úttekt á þessu og birtust niðurstöður í skýrslunni „Grensehindringer for næringslivet i Norden“ sem kom út í maí 2004.

Í flestum tilfellum var um að ræða mismunandi stjórnsýslureglur sem auðvelt ætti að vera að samræma. Veigamestu atriðin tengjast þó tollum og skattlagningu fyrirtækja, þættir sem eru ekki á forræði þeirra ráðherra sem fara með atvinnumál. Fyrst um sinn munu þeir leggja áherslu á að efla upplýsingamiðlun um reglur viðskiptalífsins, að koma á formlegu norrænu samstarfi um framtaksfjármögnun og að samræma reglur um byggingarstarfsemi.

Enda þótt margt hafi áunnist er þó einnig margt óleyst. Ég held því að óhætt sé að fullyrða að vinnan við að ryðja margvíslegum landamærahindrunum úr vegi verði enn um sinn í forgrunni norræns samstarfs.

Á árinu áttu sér stað miklar skipulagsbreytingar í norræna rannsókna- og nýsköpunarsamstarfinu. Þessar breytingar hafa verið í undirbúningi undanfarin ár en í öllum veigamiklum atriðum voru þær í samræmi við tillögur sem prófessor Gustav Björkstrand við Háskólann í Åbo setti fram í „hvítbókinni“ NORIA (Nordic Research and Innovation Area) og unnin var fyrir menntamálaráðherrana.

Á grundvelli þessara tillagna leit ný stofnun dagsins ljós í upphafi sl. árs, þ.e. Norræna nýsköpunarmiðstöðin, sem ég minntist á fyrr í máli mínu. Einnig var samþykkt ný norræn nýsköpunarstefna fyrir tímabilið 2005–2020. Jafnframt var unnið ötullega að undirbúningi stofnunar sameiginlegs norræns rannsóknarráðs. Hlaut það heitið NordForsk og hóf starfsemi sína 1. janúar sl. Líta má á Norrænu nýsköpunarmiðstöðina og Nordforsk sem systurstofnanir en þær verða kjölfestan í eftirfylgni við NORIA-hvítbókina. Stofnanirnar munu vinna náið saman enda er það mikilvægur þáttur í tillögum NORIA að nauðsynlegt sé að samþætta betur rannsóknir og nýsköpun í atvinnulífinu. Tilgangur þessarar miklu endurskipulagningar er að ná fram samlegðaráhrifum með því að nýta betur sameiginlegt fjármagn á norrænum þekkingarmarkaði, stuðla að samkeppnishæfni í atvinnulífi og koma Norðurlöndum í fremstu röð á sviði rannsókna og nýsköpunar.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka Norðurlandaráði og Íslandsdeild ráðsins fyrir gott samstarf á síðastliðnu ári. Samstarf ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs er ágætt og norrænu fjárlögin eru á öllum vinnslustigum unnin í nánu samráði þessara aðila til þess að tryggja að þau endurspegli pólitískar áherslur kjörinna fulltrúa. Þá hefur samstarf á fagsviðum aukist í kjölfar þeirra breytinga sem Norðurlandaráð gerði á nefndaskipan sinni árið 2002. Umtalsverður árangur hefur náðst við að fækka tilmælum Norðurlandaráðs og ber að þakka það sérstaklega. Af því leiðir að ráðherranefndinni ber að leggja sig betur fram en hingað til við að fylgja eftir tilmælum ráðsins. Venju samkvæmt átti samstarfsráðherra fund með Íslandsdeildinni skömmu fyrir þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi þar sem farið var yfir helstu áherslumál og staðan í norrænu samstarfi rædd.

Við Íslendingar höfum nú tekið við stjórnartaumum í Norðurlandaráði með Rannveigu Guðmundsdóttur í forsæti. Íslandsdeildarinnar bíður því erilsamt ár og óska ég þeim velfarnaðar í störfum.

Hæstv. forseti. Það er ekki ætlun mín að gera þessari skýrslu tæmandi skil hér, til þess er hún of viðamikil, og hef ég því einungis tæpt á örfáum málum. Norrænt samstarf er í stöðugri framþróun, það svarar kalli tímans og breytist að innihaldi samhliða því að löndin þurfa að takast á við ný viðfangsefni. Þannig hefur hnattvæðingin að sönnu breytt ásýnd norræns samstarfs frá því sem það var. Í samstarfinu er nú í auknum mæli horft út á við, vettvangur þess einskorðast ekki lengur við löndin fimm og sjálfstjórnarsvæðin þrjú. Samstarfi norrænu ráðherranefndarinnar við Evrópusambandið og ýmis fjölþjóðleg samtök í Norður-Evrópu hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum. Með stækkun Evrópusambandsins síðastliðið vor og inngöngu Eystrasaltsríkjanna hefur færst verulegur þungi í þessar samstarfsumleitanir. Norrænt samstarf hefur ekki aðeins hæfileikann til að breytast að innihaldi, nú eru einnig boðaðar breytingar á formi samstarfsins.

Undir formennsku Dana er nú unnið að því að færa samstarfsformið í nútímalegra horf, gera það skilvirkara þannig að það endurspegli betur pólitískar áherslur og nýtist norrænum borgurum eins vel og kostur er. Sú var tíðin að menn töldu að norræna samstarfið væri að renna sitt skeið, að það hefði sungið sinn svanasöng. Sú hefur ekki orðið raunin, þvert á móti, límið í samstarfinu er eftir allt saman ótrúlega sterkt og það hefur gengið í endurnýjun lífdaga. Sækjast sér um líkir, segir máltækið. Grundvallarþættir eins og sameiginleg saga og sameiginlegur menningararfur eru eftir allt saman hinn trausti grundvöllur samstarfsins sem aldrei mun breytast.