131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[11:53]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stjórnarsamstarfið sem nú er í gildi hefur gengið mjög vel, a.m.k. tel ég að við framsóknarmenn getum verið mjög ánægð með það. Margt hefur verið gert sem við höfum einmitt haft á stefnuskrá okkar. (Gripið fram í.) Ég nefni skattalækkanir, lækkun endurgreiðslunnar til lánasjóðsins, aukningu á barnabótum og fleiri slík atriði.

Hins vegar verður að segjast eins og er að ef maður skoðar hvað hefur gerst í Framsóknarflokknum varðandi Evrópusambandsaðild hefur þar orðið ákveðin stefnubreyting. Á sínum tíma munaði mjög litlu að flokkurinn klofnaði í kringum það hvort við ættum að verða aðilar að EES-samningnum eða ekki. Ég var viðstödd það flokksþing og þann fund þegar við tókumst sem mest á um það. Þá var ákveðið að ganga inn í EES og það var rétt skref að mínu mati. Ég var í þeim hópi sem vildi gera það. Ég held að sagan dæmi að það var rétt skref. Það er enginn að tala um að fara út úr því í dag. Allir tala um að EES hafi gefið okkur mjög margt jákvætt og að betra sé að vera þar inni en ekki.

Við höfum síðan skoðað þessi mál og vorum með stóra Evrópunefnd sem raðaði upp hvernig ætti að forgangsraða hlutunum. Númer eitt var að viðhalda EES. Númer tvö var að skoða aðild að ESB. Númer þrjú var tvíhliða samningur. Það var ákveðin stefnubreyting í því, þ.e. tvíhliða samningur var ekki númer tvö og númer þrjú ESB-aðild. ESB-aðildin kom í annað sæti. Á flokksþingi okkar núna var tekið ákveðið skref. Það er samt ekki þar með sagt að við ætlum að fara inn í Evrópusambandið, alls ekki, við erum ekki tilbúin til að segja það. Ég er þó sammála þeirri túlkun sem hæstv. forsætisráðherra hefur haft uppi um að þetta sé ákveðið skref, ákveðin tímamót í því og að okkur beri að skoða þessi mál alvarlega.

Ég er ekki sammála því sem fram hefur komið opinberlega hjá hæstv. utanríkisráðherra, að það séu engin tímamót í þessu og svo framarlega sem hann sé læs sé ekkert nýtt í því.