131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[11:55]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það voru vissulega framsýnir stjórnmálamenn sem gerðu það að verkum að Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Á sama hátt held ég að það sé mikil framsýni að stefna að því að Ísland verði fullur aðili að Evrópusambandinu. Við eigum að stefna að Evrópuaðild. Undir það tek ég heils hugar með þeim framsóknarmönnum sem fyrir því börðust á landsþingi flokksins um síðustu helgi og því lauk með þeirri ályktun sem fram hefur komið.

Ég tek undir að sú ályktun var skref, hún var töluvert skref Framsóknarflokksins í Evrópuátt og í henni felast að mínu mati töluverð tímamót. Túlki svo hver sem túlka vill hversu stórt skrefið var en ég tel að þar hafi opnast nýir fletir á samstöðu íslenskra stjórnmálaflokka hvað varðar þetta mál þegar tveir af meginflokkunum eru komnir með það á stefnuskrá sína, reyndar í mismiklum mæli.

Ég gat ekki skilið orð hv. þingmanns í ræðunni áðan öðruvísi en svo að hún legði þann skilning í orð hæstv. utanríkisráðherra, Davíðs Oddssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, að hann væri með túlkun sinni að hóta samstarfsflokknum, hóta Framsóknarflokknum, stjórnarslitum og láta í það skína að vel gæti komið til greina út af mismunandi Evrópuáherslum að ganga til stjórnarsamstarfs við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Ég gat ekki betur heyrt en að hv. þingmaður segði það nánast beinum orðum að hún skildi hæstv. utanríkisráðherra þannig að hann vildi slíta stjórnarsamstarfinu, jafnvel með það að markmiði að fara í stjórn með Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Var þetta réttur skilningur minn á orðum hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur?